Skansinn í Vestmannaeyjum

ByggingarNáttúra

Skansinn var fallbyssuvirki sem Danakonungur lét reisa til að verjast erlendum kaupmönnum.  Eftir Tyrkjaránið 1627  voru þar vopnaðir verðir. Á Skanssvæðinu er Stafkirkjan, eftirlíking af elstu kirkju á Íslandi. Kirkjan er gjöf frá Norðmönnum, byggð árið 2000 í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitökunnar. Þar er einnig Landlyst, fyrsta fæðingarheimili landsins og eitt elsta hús í Vestmannaeyjum frá 1848. Þar er nú lækningaminjasafn. Afar gott útsýni er frá Skansinum til Heimakletts og hafnarinnar í Vestmannaeyjum.

Skansinn er í umsjón Sagnheima hjá Vestmannaeyjabæ.


Tíu tillögur að afþreyingu í Vestmannaeyjum og á fastalandinu í nágrenninu.

  1.  Heimsæktu byggðasafnið í Sagnheimum m.a. til að fræðast um Tyrkjaránið 1627, ferðir íslenskra mormóna til Utah í Bandaríkjunum (sem margir komu frá Eyjum) og um Heimaeyjargosið 1973.
  2. Gakktu á fell og kletta á Heimaey, svo sem Heimaklett, Helgafell og Eldfell sem varð til í gosinu árið 1973. Þaðan er frábært útsýni yfir eyjarnar og upp á land.
  3. Farðu í siglingu um eyjarnar. Sjáðu þar meðal annars „Fílinn“, klett sem líkist fílshöfði, lunda og aðra sjófugla.
  4. Skoðaðu gosminjasýninguna í Eldheimum þar sem fjallað er um Heimaeyjargosið árið 1973 á áhrifamikinn hátt.
  5. Prófaðu að sveifla þér í Spröngunni (kaðall með hnútum), sem er erfiðara en sýnist.
  6. Heimaey hentar vel til að fara á kajak, stunda hjólreiðar, sjóböð, golf … og fleira!
  7. Matgæðingar njóta sín vel á góðum veitingastöðum í Eyjum og þar er einnig brugghús!
  8. Aftur til meginlandsins: „Safnaðu“ fossum á Suðurlandi. Áhugaverðir fossar eru meðal annars Skógafoss, Seljalandsfoss, Hjálparfoss, Háifoss og Gullfoss.
  9. Farðu í skipulagða jöklagöngu á Sólheimajökul og í snjósleðaferð á Mýrdalsjökul.
  10. Skoðaðu svartan sandinn í Reynisfjöru, brimið, stuðlabergsklettana og Reynisdranga. En farðu varlega, öldurnar geta verið lífshættulegar!

Nánari upplýsingar og hugmyndir á www.visitvestmannaeyjar.is og www.south.is

Ráðhúströð, 900 Vestmannaeyjar
sagnheimar@sagnheimar.is
www.sagnheimar.is
488 2050
Opnunartímar:

Stafkirkjan og Landlyst: 1. maí – 30. september kl. 10-17

Skanssvæðið er alltaf opið.

GönguleiðirSýning
Samtök um söguferðaþjónustu (SSF) voru stofnuð árið 2006. Þau eru samráðsvettvangur aðila er stunda söguferðaþjónustu á Íslandi, einkum hvað varðar markaðssetningu, gæði og fagmennsku.

Hafa samband

Email: info@sagatrail.is